UpphafssíðaLeitarsíðaVeftréAðstoð við notkun vefsins
Skálholt Leitarsíða     Verkefnið    Starfsfólk   

Nokkur orð um verkefnið og forsögu þess

Smám saman mun saga verkefnis þessa verða sögð ítarlegar á vefsvæðinu. Nú í byrjun mun ég láta nægja að segja hana í þessum fáu orðum. Á öðrum stað á þessari síðu er unnt að sjá yfirlit yfir þá starfsmenn sem hafa unnið að verkefninu, en fyrir utan þá hafa margir lagt okkur drjúga hjálparhönd. Mun þeirra getið síðar.

Að verkefninu Trú og tónlist í íslenskum handritum hefur á undanförnum árum verið unnið undir handarjaðri Collegium Musicum, samtaka um tónlistarstarf í Skálholti, síðar Helgisiðastofu í Skálholti. Undirritaður hefur veitt verkefninu forstöðu og átt góða samvinnu við fagmenn, bæði á sviði handritafræða og tónlistarrannsókna, sem og við þá fjölmörgu starfsmenn sem að því hafa komið. Á vefsíðunni má sjá þær niðurstöður verkefnisins sem lokið er við að setja í gagngrunninn, en enn eru ýmsir verkþættir sem á eftir að bæta þar við. Þá er mikil vinna framundan við að lagfæra, yfirfara og bæta við upplýsingum og niðurstöðum. Verður sú vinna unnin smám saman í samvinnu þeirra aðila sem nota munu gagnagrunninn við rannsóknir sínar og starf. Hér verður drepið á forsögu, umfang og fyrstu niðurstöður verkefnisins, en smám saman mun verða bætt við þannig að lokum megi fást heilleg yfirsýn yfir verkefnið og framvindu þess.

Upphaf þess að hafist var handa um að rannsaka íslenskan trúar- og tónlistararf í handritum má rekja aftur til ársins 1995. Helga Ingólfsdóttir kom þá í heimsókn til mín á Landsbókasafnið, þar sem ég vann, og sagðist hafa nýlokið við að lesa viðtal við mig í Morgunblaðinu. Þar hafði ég getið þess að eitt fegursta handrit safnsins væri uppskrift Hjalta Þorsteinssonar í Vatnsfirði frá árinu 1697 á Kvæðabók Ólafs Jónssonar á Söndum í Dýrafirði (1560-1627) og nefnt sérstaklega að þar væri víða að finna nótur. Tjáði Helga mér að hún hefði mikinn hug á því að fá að sjá handritið þar sem Hjalti væri einn fárra tónlistarmenntaðra manna sem hún hefði heimildir um frá fyrri tíð. Ég sýndi henni handritið og gat þess jafnframt að ég hefði víðar rekist á nótur í handritum sem ekki væri getið um í prentum skrám safnsins. Ég bætti því enn fremur við að í rannsóknum mínum á sálmum og kvæðum fyrri alda hefði það komið mér í opna skjöldu að nánast undantekningarlaust væri lagboði settur þar við. Svo virtist því sem íslensk sálma- og kvæðahandrit væru framar öðru sönghandrit. Skemmst er frá því að segja að hér var teningnum kastað, og í aprílmánuði 1996 efndum við Helga til ráðstefnu í Skálholti um íslenskan trúar- og tónlistararf sem markaði jafnframt formlegt upphaf rannsóknarinnar. Fluttu þar tölur Magrét Eggertsdóttir, sérfræðingur á Árnastofnun og Smári Ólason tónlistarfræðingur, auk undirritaðs. Sumarið 1998 var verkefnið kynnt opinberlega hið fyrsta sinni í Landsbókasafni með veglegri dagskrá auk þess sem sumarsýning safnsins það ár var helguð þessu sama viðfangsefni. Dagskráin var liður á Listahátíð 1998. Áður hafði Kristnihátíðarnefnd ákveðið að gerast samstarfsaðili, og litlu síðar var einnig ákveðið að Reykjavík-menningarborg Evrópu 2000 yrði formlegur samstarfsaðili. Dagana 7.-9. júlí 2000 var haldin ráðstefna í Skálholti undir yfirskriftinni Trú og tónlist í íslenskum handritum, þar sem fyrstu niðurstöður verkefnisins voru lagðar fram.

Að verkefninu hafa komið um 25 manns, ýmist sem starfsmenn til lengri eða skemmri tíma eða fræðimenn sem hafa kannað ákveðinn hluta þess trúar- og tónlistararfs sem komið hefur í ljós. Þá eru ótalin þau fjölmörgu tónskáld sem hafa nýtt sér efniviðinn, annað tveggja til að semja ný verk á grunni hinna eldri eða með því að útsetja lög sem komið hafa í leitirnar. Væri gaman að eiga á einum stað yfirlit yfir þann fjölda tónverka sem hafa annað tveggja verið samin við hina gömlu texta eða útsett við þau lög sem dregin hafa verið fram. Einnig hafa fræðimenn á sviði sálmafræða leitað í grunninum frá upphafi vegna eigin rannsókna og má nefna þá fræðimenn sem vinna að heildarútgáfu á verkum sr. Hallgríms Péturssonar sem dæmi. Hið sama á við um fræðimenn á sviði tónlistarrannsókna og má tilgreina dr. Árna Heimi Ingólfsson sem dæmi þar um.

Frá upphafi höfðum við sem unnum að verkefninu að leiðarljósi að vinna alla grunnvinnuna sjálf, í stað þess að notast við misjafnlega ófullkomnar skrár eldri fræðimanna. Hið fyrsta verk var seinunnið: að fara í gegnum fjölda handritaskráa sem til eru um íslensk handrit og safna upplýsingum um öll handrit sem innihéldu sálma eða kvæði eða væru svo nefnd samtíningshandrit. Með þessum hætti hefur í fyrsta sinn tekist að gera heildstæða skrá yfir öll kvæða- og sálmahandrit sem rituð er fyrir 1900. Samtals komu í ljós yfir 5000 íslensk handrit, sem uppfylltu þau skilyrði að vera sálma- eða kvæðahandrit og rituð fyrir um 1850. Farið var í gegnum þessi handrit og allar nótnauppskriftir dregnar fram og rannsakaðar. Á sama hátt var hafist handa við að útbúa kvæðaskrá yfir öll kvæði sem fundist í sömu handritum. Að lokum var farið í gegnum prentaðar bækur á sambærilegan hátt og hvað varðar handritin. Þessum gagnagrunnum var öllum slegið saman í einn grunn, þann sem kynntur er hér. Ákveðnir einstaklingar unnu að textainnslætti á íslensku efni og aðrir á því efni sem ritað var á latínu. Unnt er að sjá á Yfirliti yfir starfsmenn hvað hver og einn vann að.

Við sem komum að þessari vinnu eru sameinuð í þeirri vissu að íslensk menning verði þeim mun auðugri sem betur tekst að svipta hulunni af þeim trúarlega arfi í bundnu máli sem svo lengi hefur verið luktur í íslenskum handritasöfnum. Drifkraftur okkar eru þær móttökur sem við höfum fengið í gegnum árin, einkum í Skálholti. Vonin er að kirkjan, fræðimenn, listamenn og aðrir áhugasamir nýti gagnagrunninn til að skapa og fræða með því að gefa gaum að þeim aðgangi sem hefur gefist að rótum eigin sögu.

Kári Bjarnason

.


Leit
Sálmaleit: Einföld
  Ítarleg
Aðrir leitarmöguleikar