UpphafssíðaLeitarsíðaVeftréAðstoð við notkun vefsins
Skálholt Leitarsíða     Verkefnið    Starfsfólk   
Trú og tónlist í íslenskum handritum

Undir merkjum Collegium Musicum og síðar Helgisiðastofu í Skálholti hefur undanfarin ár verið unnið að rannsókn á íslenskum trúar- og tónlistararfi.

Rannsóknin felur eftirfarandi í sér:

  • Að leita uppi í fyrsta sinn allan íslenskan tónlistararf í handritum frá fyrri öldum eða allt frá
    upphafi til um 1850 með þeim seinunna hætti að fara kerfisbundið yfir öll sálma- og kvæðahandrit rituð á tímabilinu (samtals um 5.000 talsins), ennfremur að kanna allar skrár yfir erlend handritasöfn þar sem von er á íslenskum handritum og draga á þann hátt fram allt sem að gagni gæti komið vegna rannsóknarinnar. Hvoru tveggja er gríðarleg átaksvinna. Myndir af nótunum og upplýsingar um nótur og kveðskapnum sem honum fylgir eru að því búnu teknar saman og gerðar aðgengilegar í gagnagrunni verkefnisins. Auk þess hefur verið útbúið sérstakt rými í Skálholti þar sem efnið er gert aðgengilegt til frekari rannsókna fyrir fræðimenn. Þessum verkþætti telst lokið.
  • Að skrifa upp sálma og andleg kvæði úr íslenskum handritum rituðum fram til um 1850, taka saman allar upplýsingar um handrit, höfunda, ólíkar uppskriftir kvæðanna, o.s.frv. Markmiðið er að í gagnagrunninum verði til fyrsti alvöru vísir að kvæðaskrá, með sérstakri áherslu á andlegan kveðskap. Samskonar vinna hefur verið unnin hvað varðar kveðskap úr bókum, prentuðum fyrir um 1850. Þessum verkþætti er ekki lokið, enda svo umfangsmikill að einungis verður unnt að ljúka honum í samstarfi margra aðila sem vinna að uppskriftum, útgáfum og rannsóknum á íslenskum kveðskapararfi. Á hinn bóginn hefur undanfarin ár verið lögð aukin áhersla á að bæta við efnið.
  • Að rannsaka þann menningararf sem dreginn hefur verið fram en gríðarleg vinna hefur farið í að bera saman ólíkar uppskriftir kvæðanna og laganna, kanna hvað leynist í prentuðum bókum, rekja handritageymd, höfundarsögu, efnisflokka kvæðin, o.s.frv. Allar niðurstöður eru eða verða aðgengilegar í gagnagrunni verkefnisins.
  • Að miðla því sem tekist hefur að draga fram til þjóðarinnar hvort heldur með því að gefa úrval kvæðanna út á prenti, fá sérfræðinga til að rannsaka ákveðin skáld, halda ráðstefnur um tiltekna kveðskaparflokka eða þann mun sem er á kveðskapnum sem er prentaður á sínum tíma borið saman við þann sem einungis hefur fundist í handriti, o.s.frv. Hvað tónlistina áhrærir þá er ætlunin að fá tónskáld til að útsetja einstök lög, flytja úrval þess sem fundist hefur í upprunalegu formi eða með því að ráða tónlistarfræðinga til að rannsaka þann menningararf sem verið er að draga fram í dagsljósið. Úrvinnsla verkefnisins heldur áfram að fara fram í Skálholti eða í samstarfi við Skálholt á næstu árum.

Smám saman hefur komið í ljós að furðumikið er varðveitt af nótum frá liðnum öldum, einkum í handritadeild Landsbókasafns, sem löngu eru gleymdar og að sá kveðskapur sem nótunum fylgir hafi aðeins að hluta til orðið aðgengilegur síðari kynslóðum. Margt af þeim nótum og lagboðum (lagboði er ritaður við upphaf sálms eða kvæðis og segir til um undir hvaða nótum viðkomandi sálm eða kvæði skal syngja) sem finna má í handritunum er frábrugðið þeim nótum sem eru í prentuðum bókum frá sama tíma, t.a.m. í Sálmabókinni og Grallaranum. Hið sama gildir um kveðskapinn sem dreginn hefur verið fram. Aðeins hluti hans var prentaður á sínum tíma eða síðar. Hér er því um frumkvöðlastarf að ræða sem mun breyta hugmyndum manna um íslenska trúar- og tónlistarsögu.

Sjá nánar hér að ofan undir Verkefnið og Starfsfólk


Leit
Sálmaleit: Einföld
  Ítarleg
Handritaleit: Einföld
  Ítarleg
Bókaleit: Einföld
  Ítarleg
Greinagerðarleit: Leit